Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

Fuck You - Lily Allen

Hæ Fjóla.
(Það virðist sem þú sért sú eina sem lest bloggið mitt, "kommentalega" séð allavega).

Við Gunnar fórum á Versló-söngleikinn Thriller í gær.
Hann vann svo miða í bingói ekki fyrir svo löngu og bauð hann mér að koma með sér.

Ég hef aldrei verið voða hrifin af söngleikjum Verslunarskólans en ég fór nú samt í Loftkastalann í gær með opnum huga.
Hvort það segi meira um okkur Gunnar eða söngleikinn veit ég ekki, en við gengum út stuttu eftir hlé. Eða stuttu eftir að ég pikkaði í hann því hann hafði sofnað! 

Við höfðum samt alveg lúmskt gaman af því hve lélegt leikrit þetta var, þannig að við löbbuðum út með bros á vör...

Á leiðinni heim kyngdi snjónum niður.
Þegar við komum heim gátum við ekki lagt bílnum á sinn stað því stæðið var yfirfullt af snjó.

Þegar það hætti að sjóa þá fórum við Gunnar út með myndavélina:

Elska svona "óvart-myndir".

*

Ég er farin út í göngutúr með Helgu í snjónum.
Elska þennan snjó!

Heyri í þér síðar Fjóla mín.


Underdog - Kasabian

Ég elska góðan svita.

Nei, bíddu... ég elska þegar eitthvað er góðs viti.
Rugla þessu alltaf saman!

Vá, ég veit ekki hvaðan þetta kom.
Það þarf enginn að segja mér að ég hafi einkennilegan húmor...
Ég er að fullu upplýst um málið.

Annars er helgin komin og ég fagna því að þessu sinni.
Ef ég hef einhvern tíma átt skilið að detta í það þá er það núna!

En ég tók þá ákvörðun eftir síðasta djamm að taka pásu fram að InterRaili.
Ég er hins vegar komin með ágætis reynslu í að segja "skítt með það", þannig að það er aldrei að vita hvernig kvöldið verður!

(Miðað við þessa færslu mætti samt halda að ég hafi fengið mér nokkra kokteila í hádeginu...)

Ég held það sé kominn tími til að minnka kaffineysluna.
Verið sæl.


Cold Summer - Seabear

Þegar ég var á leið heim úr vinnunni á þriðjudaginn í síðustu viku varð mér litið út um gluggann og sá þá mögnuðustu norðurljós sem ég hef séð.

Ég var búin að bíða mjög lengi eftir norðurljósum svo ég gæti tekið myndir af þeim þannig að þegar ég kom heim fékk ég mér að borða, tók saman myndavéladótið mitt, klæddi mig og keyrði út á Álftanes. En þegar ég kom þangað voru norðurljósin að mestu horfin.

En ég náði nokkrum myndum, þær eru að vísu nokkuð kornóttar. En mér er skítt sama, haha.
Er svo sátt við að hafa loksins náð norðurljósamyndum.

Norðurljós

 Norðurljós


Dry your eyes - The Streets

Fyrir nokkrum árum þá hætti ég að kynna mig sem Begga.
Þó að Bergþóra sé frekar langt, og kannski óþjált, nafn finnst mér það bara mikið fallegra en Begga.

Þegar ég kynnist nýu fólki spyr það mig yfirleitt hvort ég sé ekki kölluð eitthvað annað en Bergþóra. Ég svara þá oftar en ekki með því að segja þeim að ég sé bara kölluð það sem fólk vill kalla mig.

Nokkrum á Bjarna Fel fannst þetta voða sniðugt og ákváðu að kalla mig Berg, þ.e. Bergur.

Það er hins vegar ekkert nýtt því ég er kölluð Bergur af nokkuð mörgum aðilum.
Best finnst mér samt þegar þau kalla mig Börger.

Listin yfir nöfn sem ég svara til fer sem sagt sístækkandi.
Á núverandi lista eru nöfnin:

-Bergþóra
-Begga
-Beggus
-Beggos
-Beggulingur
-Beggalá
-Besóra
-Bengóla
-Bergur
-Börger

Svo svara ég auðvitað alltaf líka nöfnum eins og:

-Meistari
-Snillingur
-Besta

En það segir sig náttúrulega alveg sjálft.
Frekar basic sko.


I've Got A Crush On You - Stacey Kent

Ég var að finna þriðja veikleika minn; Jazztónlist.

Hinir veikleikar mínir eru hnetusmjör og kaffi.
Þeirra er valdið... mátturinn og dýrðin.


Desert Eagle - Ratatat

Að dreyma vel getur verið alveg jafn slæmt, eða verra jafnvel, og að dreyma illa.

Þegar maður vaknar út frá martröð, leiðinlegum eða óþægilegum draumi þá kemst maður yfir það skömmu síðar þegar maður áttar sig á því að, jú, þetta var bara draumur.

Hins vegar þegar maður vaknar út frá góðum draumi, þar sem þú hefur t.d. náð að leysa öll vandamálin sem hafa böggað þig síðustu dagana, verða að sætti við alla sem þú átt í ósáttum við, eða gerðir eitthvað sem þú hefur ekki kjark til að framkvæma í raunveruleikanum, þá getur það verið frekar svekkandi og pínu erfitt sætta sig við að þetta hafi bara verið draumur.

Þetta var umhugsunarefni dagsins.

Bergþóra.


This Song Will Change The World - Dikta

Sá sem kýs ekki réttlæti, hann er ekki maður.

Halldór Laxness.
Heimsljós - Örn Úlfar.


Foundations - Kate Nash

Ég er loksins búin að bóka flug!
Lending í Madríd þann 8. apríl 2010 kl. 18:55.

Locked and loaded.
Bergþóra.


Dans gleðinnar - Vilhjálmur Vilhjálmsson

Það er svo mikið um að vera hjá mér þessa dagana að ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að haga mér.
Ég er búin að missa stjórn á hugsunum mínum.
Þær fljúga bara um - leita að stað til að lenda á.

Í stað augna er ég nú með tvö neonskilti sem á standa OVERLOAD með blikkstöfum.

Mér finnst það eiginlega ekki við hæfi að útskýra það sem er í gangi.
Það væri frekar ófagmannlegt.
En ég get sagt ykkur að það tengist ákveðni minni og réttlætiskennd.
Jafnvel smá lögfræðiáhuga.

Er ekki sátt með að það sé komin helgi, þá tefst allt.
Langar að klára þetta af!

Kv. Fröken Ofhlaðin.


Dog Days Are Over - Florence And The Machine

Ég er búin að sitja yfir tölvunni hátt í tvo tíma núna að reyna að bóka mér flug til Madrídar.

Er með sjúkan valkvíða.
Ég get valið um 200 áfangastaði til millilendingar, 200 dagsetningar og 200 verðflokka.
Þetta er of mikið fyrir mig.

Er samt búin að finna einn 'ferðamáta' sem hentar mér ágætlega.
Ég kaupi þá flug með Iceland Express til Köben 8. apríl og svo annað flug með Iberia (sem er eitthvað flugfélag sem ég hef aaaldrei heyrt um áður) sama dag frá Köben til Madrídar.

Ég veit ekki hvað er í gangi.
Yfirleitt er ég mjög ákveðin.

Er að pæla í að bóka þetta bara.
Samt ekki.

Oh, shit!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband